Garðsláttur

Leiðbeiningar um grasslátt
Best er að hefja slátt á grasinu um miðjan maí en fer það þó eftir veðrinu. Einnig er gott að grasið sé búið að taka við sér og vaxa eftir veturinn. Við ráðleggjum fólki að
slá ekki grasið ef hætta er miklum kulda og jafnvel næturfrosti

Tilgangurinn
Venjulegar grasflatir innihalda nokkrar grastegundir með misjafna eiginleika og þarfir. Ef gras er ekki slegið reglulega munu hávaxnar grastegundir ná yfirhöndinni í flötinni og skyggja út lágvaxnari tegundir. Markmiðið með slættinum er að viðhalda þéttri og heilbrigðri grasflöt.

Undirbúningurinn
Flestir gefa áburð á grasflatir um miðjan maí og aftur í júní. Einnig er algengt að gefið sé kalk yfir grasflatir til að vinna gegn mosavexti. (sjá nánar í texta um áburðargjöf).
Gott er að raka grasflötina fyrir fyrsta slátt. Það losar um dauðar plöntuleyfar og mosa, einnig geta steinar eða aðrir hlutir leynst í grasinu eftir veturinn sem skemma sláttuvélar.

Framkvæmdin
Best er að hefja slátt í seinni hluta maímánaðar þegar vöxtur er greinilega hafinn og mesta hættan á næturfrosti er liðin hjá. Í fyrsta slætti er ráðlegt að stilla sláttuvélina í hæstu stillingu svo ekki sé tekið of mikið í einu, frekar að leyfa grasinu að ná góðum þéttleika og sprettu. Gras er oft viðkvæmt á vorin og á í samkeppni við illgresi og mosa. Því er mikilvægt að leyfa grasinu að ljóstillífa og ná góðum vexti í upphafi tímabils.
Að öllu jöfnu er ekki heppilegt að slá meira en 1/3 af hæð grassins í einu. Gera má ráð fyrir að venjulegar grasflatir séu slegnar fyrst þegar grasið hefur náð u.þ.b. 8 cm hæð og er sláttuhæðin þá stillt í 6 cm hæð. Ágætt er að fyrstu 2-3 slættir séu í þeirri sláttuhæð. Hæðina má síðan lækka markvisst niður í u.þ.b. 4 cm sláttuhæð yfir hásumarið. Afar mikilvægt er að slá ekki niður í rótarháls grasplantna þar sem blaðvöxturinn fer fram. Sláttuorf eru sérstaklega vandmeðfarin í þessu sambandi.

Mikilvægt er að hnífar sláttuvéla séu vel brýndir. Bitlaus hnífur tætir blaðendana svo grasið visnar í endana. Þar með verður sláttuhæðin lægri en ætlunin var í upphafi.

Þegar slegið er lítið magn í einu má gjarnan láta heyið liggja. Það brotnar hratt niður í jarðveginn og gefur næringu til róta grassins. Gæta þarf að hvergi liggi þykkt heylag yfir grasinu því við það gulnar undirliggjandi gras og jafnvel deyr.
Gott er að skipta um áttir á milli slátta, þ.e. að slá til skiptis þvert á fyrri sláttustefnu. Það tryggir nákvæmari slátt og kemur í veg fyrir þjöppun í jarðvegi. Ekki er ráðlegt að slá í mikilli bleytu, sérstaklega ef um hátt gras er að ræða. Sláttuvélar sökkva gjarnan dýpra niður í blautan jarðveg og við það verður sláttuhæðin lægri en reiknað var með í upphafi.

Aldrei skal hella bensíni á sláttuvél sem staðsett er á grasflöt þar sem bensínið getur sullast niður, drepið grasið og mengað jarðveginn. Gott er að hreinsa sláttuvélar eftir hvern slátt, t.d. skola undan þeim með vatni. Erfitt getur verið að ná gömlu grasi sem þornar fast við vélina eftir slátt.

Þegar líður að hausti er gott að sláttuhæðin sé aftur hækkuð upp og síðasti sláttur framkvæmdur í u.þ.b. 6 cm sláttuhæð, t.d. í lok ágúst (háð tíðarfari). Gott getur verið að gefa grasinu möguleika á hvíld og forðasöfnun í lok vaxtartímabils, fyrir veturinn.

 

Gott er að hafa eftirfarandi atriði í huga við grasslátt:

• Raka yfir grasflötina fyrir fyrsta slátt
• Stilla sláttuvél í háa sláttuhæð fyrstu skiptin
• Aldrei slá meira en 1/3 af grashæð í einu
• Aldrei slá niður í rótarháls
• Nota breytilegar sláttustefnur
• Ekki láta mikið hey liggja eftir á grassvæðum
• Gæta þess að hnífar séu vel brýndir
• Ekki slá í mikilli bleytu
• Stilla sláttuvél í háa stillingu fyrir síðustu slætti
• Aldrei hella bensíni á vélar á grassvæðum
• Hreinsa sláttuvél eftir hvern slátt

Efni og verkfæri

Rafmagnssláttuvélar eru léttar og meðfærilegar en takmarkast við lengd á rafmagnssnúru. Bensínsláttuvélar eru almennt öflugri en jafnframt þyngri. Hægt er að fá sláttuvélar útbúnar með safnkassa sem sparar rakstur í lok sláttar. Einnig eru fáanlegar handsláttuvélar sem ýtt er á undan sér með handafli. Þær eru útbúnar með sláttukefli sem hefur 5-6 sláttuljái.

 .